02 nóvember 2008

Málverk Arngríms Gíslasonar af heimilisfólki á Halldórsstöðum - Þórarinn Magnússon og Guðrún Jónsdóttir

Arngrímur Gíslason málaði málverk af þeim hjónum, foreldrum Magnúsar Þórarinssonar, föður Kolfinnu og Bergþóru Magnúsdætra.

Úr minnisbókum Þórs eða William Francis Pálssona um Þórarinn Magnússon og Guðrúnu Jónsdóttur:

Þórarinn Magnússon á Halldórsstöðum var fæddur 13. okt. 1819 á Presthvammi þar sem foreldrar hans þá bjuggu. Ólst hann upp hjá þeim til tvítugsaldurs, fór þá frá Halldórsst. að Grenjaðarstað , til séra Jóns Jónssonar, sem þá var þar prestur, sem mikið fékkst við lækningar, eins og fleiri prestar gerðu á þeim tímum, vegna þess að fáir lærðir læknar voru í landinu. Hann var í miklu áliti sem læknir, hafði læknisleyfi frá yfirvöldunum.
Gerðist Þórarinn meðalasveinn hans (getur prestur þess í kirkjubókinni við innkomna í sókninni). Það starf hefir að líkindum verið að nokkru leyti fólgið í að safna jurtum og gera þær hæfar til læknislyfja. Þórarinn var í 4 ár á Grenjaðarstað, lagði hann nokkuð stund á nám, t.d. í skrift, reikningi og dönsku, því síðar keypti hann danskar fræðibækur sem hann las.
Ári síðar en hann kom í Grenjaðarstað kom þangað Guðrún Jónsdóttir frá [Hóli?, Hofi?] í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hún var frændkona séra Jóns: systurdóttirdóttir hans. Hafði hún komið að vestan að beiðni frú Hildar sem þá var orðin kona verslunarstjórans í Húsavík: Jakobs Þórarinssonar Jóhnsens. En svo mikið óyndi var í Guðrúnu þar á sjáfarbakkanum að séra Jón tók hana heim til sín að Grenjaðarstað, en lét aftur stúlku frá sér til Hildar dóttur sinnar. Á Grenjaðarstað kynntust þau Guðrún og Þórarinn, og voru þar samtímis þangað til þau giftust: 6. júní 1842. Hann var þá 23 ára en hún 21 árs, svaramenn þeirra voru: faðir hans Magnús Ásmundsson og Þorleifur Bjarnason bóndi í Vík í Sæmundarhlíð , stjúpi Guðrúnar....




Guðrún Jónsdóttir
Þórarinn Magnússon

Engin ummæli: