07 nóvember 2008

Minningargrein Jónasar Þorbergssonar um Þórarinn Jónsson á Halldórsstöðum



Þórarinn Jónsson


Jónas Þorbergsson, fyrsti útvarpsstjórinn, ritaði minningargrein í dagblaðið Dag á Akureyri þann 2. mars 1922 um Þórarinn Jónsson bónda á Halldórsstöðum. Ein fallegustu eftirmæli sem rituð hafa verið á íslensku:

Í dag barst mér fregn um að hann væri látinn eftir stutta legu, en langa vanheilsu, 56 ára gamall.
Mér er ekki unt, síst í fáum línum, að gera minningu Þórarins Jónssonar á Halldórsstöðum verðug skil, en kynning mín af þessum merkilega manni og eftirsjá mín heimta að ég bindi honum örsmátt orðknýti að skilnaði. Hann hefir á svo mörgum stundum æfi minnar hrifið athygli mína og aðdáun með glæsilegri persónu sinni og frábæru gáfum, að ég get ekki látið skilnaðarstund okkar líða framhjá í þögn.
Þórarinn Jónsson var hár maður vexti, beinvaxinn, tígulegur í framgöngu og upplitsdjarfur. Hárið var mikið og hrafnsvart, svipurinn stórbrotinn og mikilúðlegur. Allra manna var hann bezt eygður þeirra, sem eg hefi séð. Litur augna hans er mér ókunnur, en þau virtust oftast nær vera tinnusvört, en þó tilbrigðilegasta skuggsjá vitsmuna og skapsmuna. Frá einskis manns persónu hefi eg séð stafa slíka geisla mannvits og mikilhæfni auðugrar sálar.
Engum manni sem honum hefi eg heyrt leika svo mál í munni. Af hans vörum hefir íslenzk tunga birst mér tígulegust og sterkust. Eg hefi margar stundir setið andspænis honum og deilt við hann orðakepni og mér hefir orðið það æ ljósara, hversu mikið mig skorti bæði að vitsmunum og vígfærni til móts við hann. Hugsanir hans voru ekki reifaðar neinu tilfundnu orðaskrauti heldur átti hver skörp hugsun og frumleg og allur líkingaleikur hans völ gnægta orða af bezta tægi. Það munu hafa verið með beztu stundum hans, er hann deildi kappi við orðhaga skoðanaandstæðinga sína.
Hví var slíkur maður svo lítt þektur? Því er erfitt að svara. Þórarinn Jónsson var hreinskilinn maður og óhlífinn. Smjaður og fagurgali var honum andstygð. Eg vil breyta við hann dáinn, eins og honum var geðþekkast að menn breyttu hverjir við aðra. Eg vil segja um hann þann sannleika, að hann var annmarkamaður mikill, eftir því sem kallað er. Hann var í sinni sýslu kallaður maður lítt við alþýðuskap og þverbrotinn í skoðunum. Hann átti skoðanasamleið með fáum og stundum engum jafnvel í sumum þeim málum, sem skoðanir manna falla almennast saman um. Fyrir það hlaut hann það álit, að hann væri sérlundaður og einrænn. En að mínu áliti var hann einrænn á sama hátt og þau kjarnagrös, er vaxa á efstu grjótum, en þrífast illa á gróðrarflesjunni, þar sem miðlungsgróðurinn og það, sem er þar fyrir neðan, deilir rýrum kosti.
Ýmislegt veldur því jafnan, þegar afburðahæfileikar koma ekki að almennum notum, heldur er drepið á dreif í lífi manna. Hæfileikar Þórarins komu ekki að verulegum notum alment. Hugsanir hans féllu ekki í almenningsfarveg. Ófrumleiki almennings venja og skoðana var honum óskapfeldur. Hann var hvorttveggja bágrækur og óteymandi. Hann átti gnægt skoðana og úrlausnarráða á málum mannanna, en hann skorti þann þýðleik og lítilþægni, sem þarf, til þess að víkja af settri leið eða beygja sig niður til hjálpar því, sem vanburða berst til lífsins í almenningsskoðunum. Hann var ríkur af frjórri hugsun, en átti minna af skipulagshæfni og hófsemi. Skap hans var mikið og þoldi litla sveigju. Fátæktar vegna og föðurleysis í æsku var hann ekki settur til menta. Uppeldið mun hafa valdið miklu um skapgerð hans alla og lífsskoðanir.
Þórarinn var ókvæntur maður og barnlaus. Hann bjó með móður sinni og systkinum á Halldórsstöðum og var fyrir búi. Faðir hans dó frá honum ungum. Móðir hans dó árið 1917. Systkini hans tvö eru dáin á undan honum: Júlía, dó í æsku og Jón, dó árið 1918 og var þá þungur harmur kveðinn að Þórarni, því kært var með þeim bræðrum og þeir voru að ýmsu skaplíkir. Tvær systur lifa eftir: Þuríður, á Halldórsstöðum og Guðrún, í Ameríku.
Þórarinn fór margs á mis, sem mönnum er alment gefið, en átti líka margt, sem fáum hlotnast. Hann var að mjögl litlu leyti barns síns tíma. Umhverfi hans átti fátt af þeim skilyrðum, er samþýddust þroska hans og þrá. Náttúran var hans móðurfaðmur og líknarskjól. Hann sagði sjálfur, að líðan sín öll færi alveg eftir veðrinu. Vinnan var æðsta nautn hans, bækurnar hans æfintýraheimur. Hann átti fáa vini en góða. Hann var minnugur á mótgerðir og eigi síður á velgerðir. Framkoma hans var tvíveðrungslaus og ákveðin. Hann var skapharður, stórbrotinn og óbifanlegur, ef honum mættu mótgerðir. Gælumaður var hann enginn, en velgerðir honum til handa vermdu hann hið innra og vermdu lengi.
Mér legst þungi í brjósti, er kveð þenna vin minn og merkilega mann. Með honum fer í gröfina margt, sem eg tel eftirsjárvert. Hann var að ýmsu höfði hærri umhverfi sínu en bar ekki gæfu til þess að lyfta samtíð sinni, né samtíðin að njóta hans. Mér og ýmsum öðrum, sem þektu hann, verður hann eftirminnilegasti maður allra þeirra, sem vandalausir eru. Eg veit að leiði hans grær - og gleymist, í vorskúrum komandi ára. Fyrir því hefi eg bundið honum þenna blómsveig minninganna, að eg vil að framtíðin viti, að slíkur maður hefir lifað.

20. febr. 1922

J. Þ.

Engin ummæli: