01 nóvember 2008

Grenjaðarstaðarprestur setur húsfreyjuna á Halldórsstöðum út af sakramentinu

Eftirfarandi frásögn er úr minnsbók Þórs eða William Francis Pálssona. Líklega tekið upp úr minnisblöðum Sveins Þórarinssonar á Halldórsstöðum, föðurbróður þeirra. Hér segir frá húsfreyjunni á Halldórsstöðum og þrætum hennar við Grenjaðarstaðaprest:

"Hún var meðalkvenmaður á hæð, heldur grannvaxin, hárið jarpt fremur þunnt, augun gráblá, hörð og hvöss þegar hún reiddist, því skapstór var hún mjög, bar mest á því eftir að séra Jón á Grenjaðarstað byrjaði á landaþrætumáli við Halldórsstaði árið eftir að Magnús [Ásmundsson] maður hennar dó, og Þórarinn elsti sonur hennar farinn að búa vestur í Skagafirði. Byrjaði séra Jón landaþrætu þessa á að byggja "Selhús" fyrirvaralaust nokkuð sunnan við "Tvígarða" sem alltaf voru taldir landamerki milli Halldórsstaða og Grenjaðarstaða. Eftir þetta kom upp mikil óvild milli prestsins og Sigríðar. Þá var eitt sinn nokkru síðar að fólk ætlaði að vera til altaris í Þverárkirkju; var og komið í kirkjuna að hlíða á skriftaræðu prestins; lýsir hann því yfir að hann vísi frá sakramenti ekkjunni á Halldórsstöðum og vinnumanni hennar: Jónasi Jónssyni, hafði hann sem vitni í málinu borið eitthvað sem presti líkaði ekki. Jónas fór úr kirkjunni og fékk sér vel í staupinu, að messu lokinni talaði hann alvarlega við prestinn. En ekkjan á Halldórsstöðum var ekki mætt í kirkju. Þótti sumum prestur hlaupa á sig með því að vísa henni frá sakrakmenti , þar sem hún var ekki viðstödd. Síðar mun Sigríður hafa launað presti þetta eftir sem Snorra Jónssyni hreppstjóra á Þverá sagðist frá, hafði hann lesið gamla dagbók séra Jóns, þar var þess getið að prestur fór í Þverá að messa, og komið í Halldórsstaði um leið; þá hefði ekkjan þar, Sigríður, "yfirfallið sig með þeim óbótaskömmum að hann hefði ekki séð sér annað fært en að veita henni sakramentið aftur".

Engin ummæli: