30 nóvember 2008

Notuð íslensk frímerki kaupi ég hærra verði en aðrir...

Auglýsing William Francis Pálssonar í Degi 5. desember 1959:

Notuð íslensk frímerki kaupi ég hærra verði en aðrir
William F. Pálsson
Halldórsstaðir, Laxárdal, S.-Þingeyjarsýslu.

Gunnlaugur í Kasthvammi skrifar um Laxárdal

Greinin birtist í Degi 10. ágúst 1977.

Hægt er að nálgast greinina á timarit.is, rafrænni útgáfu á gömlu blöðum og tímaritum á Þjóðarbókhlöðu.

http://timarit.is/titlebrowse.jsp?issueID=444771&pageSelected=2&lang=0

Staðir í Laxárdal á náttúruminjaskrá

Upplýsingar úr dagblaðinu Degi 12. febrúar 1992:

Skv. sjöttu útgáfu af náttúruminjaskrá, frá 1992 eru, meðal annars, eftirtaldir staðir skráðir sem náttúruminjar:

Varastaðaskógur S-Þing. Skóglendi milli Ljótsstaða og Brettingsstaða í Laxárdal. Svæðið er að hluta til friðlýst skv. lögum um vernd Mývatns og Laxár.

Halldórsstaðir S-Þing. Fjölbreytt landslag neðan frá Laxá og upp í heiði

Gjafir frá Þórarni Jónssyni til Þjóðminjasafnsins 1922

Úr Morgunblaðinu 1922 um gjöf Þórarins Jónssonar til Þjóðminjasafnsins:

...fjöldi gamalla, íslenskra bóka, útskorinn stokkur og brauðmót og gamlar kotrutöflur, sem Þórarinn Jónsson á Halldórsstöðum í Laxárdal hafði ánafnað eða Þuríður systir hans gaf...

17 nóvember 2008

Af Bergþóru Magnúsdóttur og Guðrúnu móður hennar

Úr góðri bók Matthíasar Viðar Sæmundssonar um Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey:

"Kannski hefur móðurinni [Bríeti Bjarnhéðinsdóttur] verið hugsað til Guðrúnar, yngri systur sinnar á Halldórsstöðum í Laxárdal, sem hún fékk bréfnefnu frá daginn áður. Litla stúlkan hennar, Bergþóra, braggaðist vel, var búin að taka fjórar tennur og farin að segja mamma og baba. Bríet ætlaði að útvega Guðrúnu laglegan kjól handa telpunni, þegar hún kæmist á fætur, en varð svolítið hugsi yfir spurningum systur sinnar. "Hvernig þikir fallegast að hafa sokka á krakka fyrir sunnan?" spyr hún í bréfinu. "Eru þeir eins á drengi og stúlkur?""

16 nóvember 2008

"Að drekka illa áfengt vín..."


Að drekka illa áfengt vín,
öllum spillir friði.
Það er villan mesta mín
að missa hylli og verða svín.

Tildrög:
Höfundur er hryggur yfir áfengisneyslu sinni. Um það kveður hann hringhent stikluvik. Samstæð vísa er „Bætur varla verða á því.“

Vísa eftir Baldvin Jónatansson skáld


Taktu af minni tungu höft
svo talað geti betur.
En fyrir öll þín axarsköft
iðrast skalt þú Pétur.

Baldvin Jónatansson f.1860 - d.1944

Um höfund:
Var í Víðiseli, Holtakoti og víðar. Dó á Halldórsstöðum. Foreldrar Jónatan Eiríksson og kona hans Guðrún Stefánsdóttir. Heimild: Ættir Þingeyinga bls. 262

Heimild:
Vísnasafn Sigurjóns Sigtryggssonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

13 nóvember 2008

Hreindýr í Halldórsstaðatúni

Úr minnisbókum Williams eða Þórs Pálssona:

Einu sinni að vetrarlagi komu þrjú hreindýr austan úr Kasthvammsheiði og fóru á ís yfir Laxá fóru upp sunnan við túnið. Fór Magnús með riffil sinn í veg fyrir þau, skaut eitt þeirra hjá "Syðraholtinu", annað hjá "Smalahnútunni" og það þriðja sunnan á "Hvítafellinu".

Sveinn Þórarinsson segir frá:

Úr minnisbókum Williams eða Þórs Pálssona:

Þórarinn faðir minn byggði "Stekk" sunnan í Þorgerðarfjalli, þar man ég eftir að fært var frá - Einnig byggði hann "beitarhúsin" sem tóku 80 sauði. Áður keypti hann 1849 "Sel" það er séra Jón á Grenjaðarstað lét byggja 1844, í hvamminum þar sem tóftarbrotin eru neðan við lindina í fjallinu, (norðan við beitarhúsin).
Eftir að Þórarinn fór að búa (á Halldórsst.) flutti hann kornmylluna (sem faðir hans bygði ofan við "Hornhúsin") suður og uppí holtið og hleypti læknum suður úr farveginum að henni og svo út í gilið aftur, ástæðan til þessa fluttníngs var sú að mikið fennti að henni í gilinu.

Sveinn Þórarinsson segir frá:

Úr minnisbókum Williams eða Þórs Pálssona:

Magnús Ásmundsson byggði á Halldórsstöðum, stofu sunnan við bæjardyrnar árið 1834; var hún kölluð "Nýja stofa" þegar ég man fyrst eftir. Stekk lét hann byggja í Stekkjardal. Magnús bróðir minn sagðist muna eftir að fyrstu árin eftir að hann fór að fara á stekk, hefði verið fært frá á stekknum í Stekkjardal.
Magnús Ásm. afi minn byggði kornmyllu í brennilækjargilinu rétt ofan við "Hornhúsin", lét lækinn hreyfa hana með spjaldakorti sem vatnið féll á, malaði í henni allt sitt korn, einnig nokkuð fyrir aðra bændur. Heimamalað mjög þótti miklu betra en hið danska mjöl sem sífellt var skemmt og svikið. Um þetta bil voru fleiri bændur að koma sér upp kornmyllum, þar sem svo hagaði til að lækir voru hentugir til þess.

Kvæði um Laxá eftir Halldór Stefánsson

Úr dagbókum Þórs Pálssonar:

Áin hrekkjótt oft í bland
er þar kraftur falinn
sveiflast eins og silfurband
sunnan Laxárdalinn.
(Halldór Stefánsson)





Uppdráttur Arngríms Gíslasonar málara af landi Halldórsstaða

Arngrímur Gíslason málari gerði uppdrátt af landi Halldórsstaða sem notaður var í landamerkjadeilum Halldórsstaða og Grenjaðarstaða.




09 nóvember 2008

Skyttan Magnús Ásmundsson


Úr minnisbókum William eða Þórs Pálssona:


Magnús [Ásmundsson] var mjög góð skytta, var hann og mjög heppin grenjaskytta. Skaut hann eitt sinn þrjú fullorðin dýr við eitt og sama greni (Sögn Sigurðar Eyjólfssonar bónda í Hólum). Einnig var hann mikil hreindýraskytta. Átti hann riffil, sem hann notaði við hreindýraveiðar; var það og mjög fágætt að menn ættu riffla á þeim dögum. Það var hans föst venja, áður en hann fór á hreindýraveiðar, að skjóta einu reynslu skoti í mark, hafði hann þá taðflögur fyrir skotspón, sem hann reysti upp á öskuhaugnum, er var úti við Brennilækinn. en stóð sjálfur heima við bæjardyr, er það __ faðma færi. Hann fór venjulega á hverju hausti austur á Reykjaheiði á hreindýraveiðar og flutti mötuna og skinnin heim í bú sitt. Það sagði gömul kona (Sveini Þórarinssyni, syni Magnúsar) sem vinnukona var hjá Magnúsi, að hann hefði stundum saltað hreindýrakjötið saman við sauðakjötið, sitt lagið af hvoru í tunnuna.

Námfýsi Magnúsar Ásmundssonar


Úr minnisbókum William eða Þórs Pálssona:


Magnús [Ásmundsson] var námfús mjög í æsku, og vildi læra skrift, en faðir hans hjelt honum fast til vinnunnar eins og títt var í þá daga. Fór hann þá upp á eigin spýtur að reyna að læra það þegar hann var við fjárhirðingar og tæki sín hafði hann í húsunum, en ekki voru þau tæki sem fullkomnust: pappírinn var gamall hvítur hrosskjálki , en penninn og blekið viðarkolamoli. Með þessum tækjum lærði hann að skrifa, og skrifaði góða fljóta skriftarhönd á sínum hreppstjóraárum. Hreppstjóri varð hann 1818...

08 nóvember 2008

Hjónin Jón Jónsson og Sigríður Þórarinsdóttir

Sigríður Þórarinsdóttir var dóttir Þórarins Magnússonar og systir Magnúsar Þórarinssonar sem núverandi Halldórsstaðafólk telur ættir sínar til. Hún var fædd á Bessastöðum í Skagafirði 21. júlí 1844 og dó á Halldórsstöðum 18. mars 1917. Jón Jónsson maður hennar var fæddur í Máskoti 14. apríl 1834 og dó í Geitafelli 5. nóvember 1869. Þau giftust 1864 og áttu saman fjögur börn; Þuríði, Þórarinn, Jón og Guðrúnu.
Málverkin af þeim hjónum eru eftir Arngrím Gíslason málara, sem síðar tók saman við ekkjuna Sigríði og átti með henni eina dóttur, Júlíu.

Sigríður Þórarinsdóttir


Jón Jónsson

07 nóvember 2008

Minningargrein Jónasar Þorbergssonar um Þórarinn Jónsson á Halldórsstöðum



Þórarinn Jónsson


Jónas Þorbergsson, fyrsti útvarpsstjórinn, ritaði minningargrein í dagblaðið Dag á Akureyri þann 2. mars 1922 um Þórarinn Jónsson bónda á Halldórsstöðum. Ein fallegustu eftirmæli sem rituð hafa verið á íslensku:

Í dag barst mér fregn um að hann væri látinn eftir stutta legu, en langa vanheilsu, 56 ára gamall.
Mér er ekki unt, síst í fáum línum, að gera minningu Þórarins Jónssonar á Halldórsstöðum verðug skil, en kynning mín af þessum merkilega manni og eftirsjá mín heimta að ég bindi honum örsmátt orðknýti að skilnaði. Hann hefir á svo mörgum stundum æfi minnar hrifið athygli mína og aðdáun með glæsilegri persónu sinni og frábæru gáfum, að ég get ekki látið skilnaðarstund okkar líða framhjá í þögn.
Þórarinn Jónsson var hár maður vexti, beinvaxinn, tígulegur í framgöngu og upplitsdjarfur. Hárið var mikið og hrafnsvart, svipurinn stórbrotinn og mikilúðlegur. Allra manna var hann bezt eygður þeirra, sem eg hefi séð. Litur augna hans er mér ókunnur, en þau virtust oftast nær vera tinnusvört, en þó tilbrigðilegasta skuggsjá vitsmuna og skapsmuna. Frá einskis manns persónu hefi eg séð stafa slíka geisla mannvits og mikilhæfni auðugrar sálar.
Engum manni sem honum hefi eg heyrt leika svo mál í munni. Af hans vörum hefir íslenzk tunga birst mér tígulegust og sterkust. Eg hefi margar stundir setið andspænis honum og deilt við hann orðakepni og mér hefir orðið það æ ljósara, hversu mikið mig skorti bæði að vitsmunum og vígfærni til móts við hann. Hugsanir hans voru ekki reifaðar neinu tilfundnu orðaskrauti heldur átti hver skörp hugsun og frumleg og allur líkingaleikur hans völ gnægta orða af bezta tægi. Það munu hafa verið með beztu stundum hans, er hann deildi kappi við orðhaga skoðanaandstæðinga sína.
Hví var slíkur maður svo lítt þektur? Því er erfitt að svara. Þórarinn Jónsson var hreinskilinn maður og óhlífinn. Smjaður og fagurgali var honum andstygð. Eg vil breyta við hann dáinn, eins og honum var geðþekkast að menn breyttu hverjir við aðra. Eg vil segja um hann þann sannleika, að hann var annmarkamaður mikill, eftir því sem kallað er. Hann var í sinni sýslu kallaður maður lítt við alþýðuskap og þverbrotinn í skoðunum. Hann átti skoðanasamleið með fáum og stundum engum jafnvel í sumum þeim málum, sem skoðanir manna falla almennast saman um. Fyrir það hlaut hann það álit, að hann væri sérlundaður og einrænn. En að mínu áliti var hann einrænn á sama hátt og þau kjarnagrös, er vaxa á efstu grjótum, en þrífast illa á gróðrarflesjunni, þar sem miðlungsgróðurinn og það, sem er þar fyrir neðan, deilir rýrum kosti.
Ýmislegt veldur því jafnan, þegar afburðahæfileikar koma ekki að almennum notum, heldur er drepið á dreif í lífi manna. Hæfileikar Þórarins komu ekki að verulegum notum alment. Hugsanir hans féllu ekki í almenningsfarveg. Ófrumleiki almennings venja og skoðana var honum óskapfeldur. Hann var hvorttveggja bágrækur og óteymandi. Hann átti gnægt skoðana og úrlausnarráða á málum mannanna, en hann skorti þann þýðleik og lítilþægni, sem þarf, til þess að víkja af settri leið eða beygja sig niður til hjálpar því, sem vanburða berst til lífsins í almenningsskoðunum. Hann var ríkur af frjórri hugsun, en átti minna af skipulagshæfni og hófsemi. Skap hans var mikið og þoldi litla sveigju. Fátæktar vegna og föðurleysis í æsku var hann ekki settur til menta. Uppeldið mun hafa valdið miklu um skapgerð hans alla og lífsskoðanir.
Þórarinn var ókvæntur maður og barnlaus. Hann bjó með móður sinni og systkinum á Halldórsstöðum og var fyrir búi. Faðir hans dó frá honum ungum. Móðir hans dó árið 1917. Systkini hans tvö eru dáin á undan honum: Júlía, dó í æsku og Jón, dó árið 1918 og var þá þungur harmur kveðinn að Þórarni, því kært var með þeim bræðrum og þeir voru að ýmsu skaplíkir. Tvær systur lifa eftir: Þuríður, á Halldórsstöðum og Guðrún, í Ameríku.
Þórarinn fór margs á mis, sem mönnum er alment gefið, en átti líka margt, sem fáum hlotnast. Hann var að mjögl litlu leyti barns síns tíma. Umhverfi hans átti fátt af þeim skilyrðum, er samþýddust þroska hans og þrá. Náttúran var hans móðurfaðmur og líknarskjól. Hann sagði sjálfur, að líðan sín öll færi alveg eftir veðrinu. Vinnan var æðsta nautn hans, bækurnar hans æfintýraheimur. Hann átti fáa vini en góða. Hann var minnugur á mótgerðir og eigi síður á velgerðir. Framkoma hans var tvíveðrungslaus og ákveðin. Hann var skapharður, stórbrotinn og óbifanlegur, ef honum mættu mótgerðir. Gælumaður var hann enginn, en velgerðir honum til handa vermdu hann hið innra og vermdu lengi.
Mér legst þungi í brjósti, er kveð þenna vin minn og merkilega mann. Með honum fer í gröfina margt, sem eg tel eftirsjárvert. Hann var að ýmsu höfði hærri umhverfi sínu en bar ekki gæfu til þess að lyfta samtíð sinni, né samtíðin að njóta hans. Mér og ýmsum öðrum, sem þektu hann, verður hann eftirminnilegasti maður allra þeirra, sem vandalausir eru. Eg veit að leiði hans grær - og gleymist, í vorskúrum komandi ára. Fyrir því hefi eg bundið honum þenna blómsveig minninganna, að eg vil að framtíðin viti, að slíkur maður hefir lifað.

20. febr. 1922

J. Þ.

Gömul kreppuráð

Úr Reykdæla sögu og Víga-Skútu:

7. kafli

Þá gerði vetur mikinn þar eftir hinn næsta og eiga þeir fund Reykdælir að Þverá að Ljóts hofgoða og það sýndist mönnum ráð á samkomunni að heita til veðrabata. En um það urðu menn varla ásáttir hverju heita skyldi. Vill Ljótur því láta heita að gefa til hofs en bera út börn og drepa gamalmenni. En Áskatli þótti það ómælilegt og kvað engan hlut batna mundu við það heit, sagðist sjá þá hluti að honum þótti líkara til að batna mundi ef heitið væri. Og nú spyrja menn hvað það væri en hann sagði að ráðlegra væri að gera skaparanum tign í því að duga gömlum mönnum og leggja þar fé til og fæða upp börnin. Og svo lauk nú þessu máli að Áskell réð þó að margir menn mæltu í móti í fyrstu. Og öllum þeim er réttsýnir voru þótti þetta vera vel mælt.

Reykdæla saga og Víga-Skúta

Draumur Sigríðar Þórarinsdóttur um son sinn Þórarinn Magnússon

Úr minnisbókum William Francis Pálssonar eða Þórs Pálssonar (eftir Sveini Þórarinssyni föðurbróður þeirra):

... Þá var það eitt sinn skömmu áður en Sigríður fæddi sitt fyrsta barn, að hana dreymdi að hún væri stödd út á hlaði, sér hún þá koma bjarndýrshún ofan af heiðinni, stefna heim að bænum, fer hún þá inn í baðstofu og í rúm sitt, kemur þá bjarndýrshúnninn á eftir henni inn í baðstofuna og sest þar og horfir á hana. Við það vaknar hún. Nokkru síðar fæðir hún frumburð sinn Þórarinn. Réð hún draum sinn svo að húnninn væri fylgja barnsins, sem væri að heimsækja hana, var síðan talið að húnn fylgdi Þórarni. Það var almenn trú á þeim dögum, og allt fram um síðustu aldamót, að eitthvað fylgdi öllum mönnum, annaðhvort svipur einhvers framliðins manns eða dýrs. Þóttist fólk oft verða vart fylgjunnar, fyrir komu þeirra er hún átti að fylgja, einkum í svefni.

Þórarinn Magnússon

02 nóvember 2008

Málverk Arngríms Gíslasonar af heimilisfólki á Halldórsstöðum - Þórarinn Magnússon og Guðrún Jónsdóttir

Arngrímur Gíslason málaði málverk af þeim hjónum, foreldrum Magnúsar Þórarinssonar, föður Kolfinnu og Bergþóru Magnúsdætra.

Úr minnisbókum Þórs eða William Francis Pálssona um Þórarinn Magnússon og Guðrúnu Jónsdóttur:

Þórarinn Magnússon á Halldórsstöðum var fæddur 13. okt. 1819 á Presthvammi þar sem foreldrar hans þá bjuggu. Ólst hann upp hjá þeim til tvítugsaldurs, fór þá frá Halldórsst. að Grenjaðarstað , til séra Jóns Jónssonar, sem þá var þar prestur, sem mikið fékkst við lækningar, eins og fleiri prestar gerðu á þeim tímum, vegna þess að fáir lærðir læknar voru í landinu. Hann var í miklu áliti sem læknir, hafði læknisleyfi frá yfirvöldunum.
Gerðist Þórarinn meðalasveinn hans (getur prestur þess í kirkjubókinni við innkomna í sókninni). Það starf hefir að líkindum verið að nokkru leyti fólgið í að safna jurtum og gera þær hæfar til læknislyfja. Þórarinn var í 4 ár á Grenjaðarstað, lagði hann nokkuð stund á nám, t.d. í skrift, reikningi og dönsku, því síðar keypti hann danskar fræðibækur sem hann las.
Ári síðar en hann kom í Grenjaðarstað kom þangað Guðrún Jónsdóttir frá [Hóli?, Hofi?] í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Hún var frændkona séra Jóns: systurdóttirdóttir hans. Hafði hún komið að vestan að beiðni frú Hildar sem þá var orðin kona verslunarstjórans í Húsavík: Jakobs Þórarinssonar Jóhnsens. En svo mikið óyndi var í Guðrúnu þar á sjáfarbakkanum að séra Jón tók hana heim til sín að Grenjaðarstað, en lét aftur stúlku frá sér til Hildar dóttur sinnar. Á Grenjaðarstað kynntust þau Guðrún og Þórarinn, og voru þar samtímis þangað til þau giftust: 6. júní 1842. Hann var þá 23 ára en hún 21 árs, svaramenn þeirra voru: faðir hans Magnús Ásmundsson og Þorleifur Bjarnason bóndi í Vík í Sæmundarhlíð , stjúpi Guðrúnar....




Guðrún Jónsdóttir
Þórarinn Magnússon

Málverk Arngríms Gíslasonar af heimilisfólki á Halldórsstöðum - Magnús Þórarinsson

Arngrímur Gíslason var um tíma heimilismaður á Halldórsstöðum í Laxárdal. Hann málaði myndir af heimilisfólki, þar á meðal þessa af Magnúsi Þórarinssyni.

Magnús Þórarinsson

01 nóvember 2008

"Skjóttu Magnús, ég er dauður hvort eð er" - hreppstjórarnir Magnús á Halldórsstöðum og Jakob á Breiðumýri á hreindýraveiðum

Tekið úr minnisbók Þórs eða William Francsis Pálssona:

Eitt haust fóru þeir báðir hreppstjórarnir (í Helgastaðahreppi), Jakob Pétursson á Breiðumýri og Magnús Ásmundsson á Halldórsst. austur á Reykjaheiði til hreindýraveiða. Þeir særðu og biluðu stóran hreintarf, ætluðu að kreppa að honum við eða milli gjáa, og taka hann höndum. Þá réðist dýrið á Jakob og tók hann upp á hornin og fór á stað með hann, þá kallaði Jakob, "Skjóttu Magnús, ég er dauður hvort sem er."
Magnús skaut dýrið með Jakob á hálsi eða hornum , það féll dautt niður til jarðar en Jakob sakaði ekki.

Arngrímur Gíslason málari og merki Reykdæla

Í Morgunblaðinu 23. júní 1914 má finna grein um sögu íslenska fánamálsins. Þar kemur fram að Arngrímur Gíslason málari, sem um tíma bjó á Halldórsstöðum, og málaði myndir af heimilisfólki þar, bjó til merki Reykdæla. Það var "...3 álnir á lengd en 2 álnir á breidd, með fálkamynd í fullri stærð. Í efra horninu við stöngina var máluð mannshönd, sem hélt utan um skaft á hamri, og mun það hafa átt að tákna Þór með hamarinn Mjölni. Í neðra horninu sama megin voru líkar myndir og á titilblaðinu á Friðþjófssögu (dreki, fugl, skjöldur, sverð, öxi og atgeir). Í efra horninu að framan var rauður kross með svörtum jaðri á eina hlið, en kringum hann sem geislar stöfuðu út frá sólu; en í neðra horninu var mynd af letraðri bók, er tákna skyldi biblíuna og reis, og reis hún upp við mynd af ljósastjaka með kerti í og logandi ljósi. Á miðri veifunni uppi yfir fálkanum stóðu stafirnir »Island«, og neðan við myndina »1000«. Sams konar veifu höfðu Mývetningar."









Grenjaðarstaðarprestur setur húsfreyjuna á Halldórsstöðum út af sakramentinu

Eftirfarandi frásögn er úr minnsbók Þórs eða William Francis Pálssona. Líklega tekið upp úr minnisblöðum Sveins Þórarinssonar á Halldórsstöðum, föðurbróður þeirra. Hér segir frá húsfreyjunni á Halldórsstöðum og þrætum hennar við Grenjaðarstaðaprest:

"Hún var meðalkvenmaður á hæð, heldur grannvaxin, hárið jarpt fremur þunnt, augun gráblá, hörð og hvöss þegar hún reiddist, því skapstór var hún mjög, bar mest á því eftir að séra Jón á Grenjaðarstað byrjaði á landaþrætumáli við Halldórsstaði árið eftir að Magnús [Ásmundsson] maður hennar dó, og Þórarinn elsti sonur hennar farinn að búa vestur í Skagafirði. Byrjaði séra Jón landaþrætu þessa á að byggja "Selhús" fyrirvaralaust nokkuð sunnan við "Tvígarða" sem alltaf voru taldir landamerki milli Halldórsstaða og Grenjaðarstaða. Eftir þetta kom upp mikil óvild milli prestsins og Sigríðar. Þá var eitt sinn nokkru síðar að fólk ætlaði að vera til altaris í Þverárkirkju; var og komið í kirkjuna að hlíða á skriftaræðu prestins; lýsir hann því yfir að hann vísi frá sakramenti ekkjunni á Halldórsstöðum og vinnumanni hennar: Jónasi Jónssyni, hafði hann sem vitni í málinu borið eitthvað sem presti líkaði ekki. Jónas fór úr kirkjunni og fékk sér vel í staupinu, að messu lokinni talaði hann alvarlega við prestinn. En ekkjan á Halldórsstöðum var ekki mætt í kirkju. Þótti sumum prestur hlaupa á sig með því að vísa henni frá sakrakmenti , þar sem hún var ekki viðstödd. Síðar mun Sigríður hafa launað presti þetta eftir sem Snorra Jónssyni hreppstjóra á Þverá sagðist frá, hafði hann lesið gamla dagbók séra Jóns, þar var þess getið að prestur fór í Þverá að messa, og komið í Halldórsstaði um leið; þá hefði ekkjan þar, Sigríður, "yfirfallið sig með þeim óbótaskömmum að hann hefði ekki séð sér annað fært en að veita henni sakramentið aftur".

Sigríður Þórarinsdóttir frá Hólum: "Yfirféll hún prest með þeim óbótaskömmum..."

Sigríður Þórarinsdóttir frá Hólum var gift Magnúsi Ásmundssyni. Í eftirfarandi minnisblöðum er meðal annars frásögn af viðskiptum Sigríðar við Grenjaðarstaðaprest.