08 júní 2009

Tónlistargagnrýni Áskels Snorrasonar á söng Lizziear Þórarinsson

Söngur
Í gærkvöldi hélt frú Lizzie (Elizabeth) Þórarinsson frá Halldórsstöðum í Laxárdal hljómleika í Akureyrar-Bíó. Hún hefir einkar hljómfagra rödd, hreina, þýða og bjarta, en eigi sérlega háa (mezzosopran), og beitir henni af mikilli smekkvísi. Hún er eigi mikið »lærð« söngkona, en hún hefir iðkað söng frá barnæsku og hefir náð mikilli leikni. Tónhæfni hennar er með afbrigðum góð, og kom það t. d. vel í Ijós, er hún söng tvíslagið í laginu Þú ert sem bláa blómið eftir Schumann.
Það má telja henni til gildis, að hún er alveg laus við tilgerð og kæki, sem lýta söng margra þeirra, er »lærðir« teljast. Söngur hennar er látlaus og blátt áfram eins og öll sönn list.
Lögin, sem frú Lizzie söng, voru ágætlega valin og mjðg fjölbreytt að innihaldi: nokkur af bestu lögum Íslendinga og nokkur útlend smálög, flest hreinar perlur. Er eigi ofmælt, að meðferð laganna var hin prýðilegasta. Frúin hefir glöggan skilning bæði á ljóðum og sönglögum og hæfileika til að leggja sál sína í sönginn. Hún syngur af ást á sönglistinni og af innri þörf, og því er söngur hennar altaf fagur og hefir góð áhrif, og þótt eitthvað kunni að mega finna að honum frá ströngu söngteknisku sjónarmiði, þá eru kostirnir svo miklir, að telja má söng hennar með því besta, sem hér hefir heyrst.
Frú Lizzie hefir dvalið hérlendis rúmlega þrjá fimtu hluta æfi sinnar, enda hefir hún samlagast svo vel þjóð vorri, að slíks munu fá eða engin dæmi um útlendinga. Hr. Vigfús Sigurgeirsson lék undir á slaghörpu, sem Akureyrar Bíó keypti af Músíkfélagi Akureyrar, og leysti hann það sæmilega af hendi.

Akureyri 25. Nóv. 1927.
Áskell Snorrason.
Gagnrýnin birtist í Verkamanninum 29. nóvember 1927

Engin ummæli: