08 júní 2009

Skáldið heyrist syngja í þokunni - af Baldvin Jónatanssyni skáldi




Neðanmálsgrein blaðsins að þessu sinni nefnist „Skáldið heyrist syngja í þokunni" og er frásöguþáttur af Baldvin Jónatanssyni skáldi, skráður af Helga Jónssyni frá Stafnsholti... Helgi er hinn fróðasti maður og hefur skrifað mikið um persónusögu Þingeyinga, sem til er í handriti. Frásaga sú af Baldvin skáldi, skráð af Helga er þáttur úr ævisögu Jóns Jónssonar, bónda í Stafnsholti, föður höfundarins, en Baldvin var einn af nágrönnum Jóns. Annars hefur Helgi ritað sérstaka ævisögu Baldvins, mikið rit, er kemur að forfallalausu út í ár. (Frjáls þjóð 4. tbl. 1953).




Skáldið heyrist syngja í þokunni


(eftir Helga Jónsson frá Stafnsholti)



Svo bar til, er Jón í Stafnsholti rak fé sitt til beitar seint á útmánuðum 1897 og sólskin var hið efra, en þokuhula með jörð, að fögur söngrödd barst úr þokunni í átt til Köldukinnarfjalla. Voru þar sungin ættjarðarljóð, sum löng, enda milli án uppihalds, unz tveir menn sáust koma fram úr hulunni. Teymdu þeir hesta með sleðum aftan í. Á sleðunum voru húsgögn fagurmáluð öllum regnbogans litum.

Sveinar tveir voru í fylgd með Jóni bónda, Hallsteinn sonur hans og Unnsteinn systursonur. Sveinarnir stóðu undrandi og kenndu þó fljótt fyrirliðann með sitt Ijósrauða alskegg og þykku, slútu neðrivör, er sat í skegginu sem útsprungin, dökkrauður blómklasi í sólgylltu laufi. Var þar kominn Baldvin skáld Jónatansson, er fyrir fjórum árum hafði verið húsmennskumaður í Holti eitt ár, og flutt þaðan að Holtakoti við Ljósavatnsskarð.

Nú hafði Baldvin fengið byggingarrétt á Víðaseli, er var þrjá kílómetra í austur frá Holti. Sá bær stóð sunnan undir Víðafelli í fagurgrænum hvammi. Lítil á kemur þar sunnan úr heiðinni, bugðast um mörg valllendisnes og fellur síðan í vítt og djúpt hamragil, gróið hrísi og kjarri. Verður hár foss í ánni örskammt undan bæ í Víðaseli. Heitir sá Víðafoss.

Þarna hafði í fyrstu hafið byggð Jón Einarsson, kallaður litli Jón, allra manna smæstur, en flestum mönnum fegurri og kvenlegri.

Síðar hafði búið þar Pétur, sonur Guðmundar Tómassonar á Kálfaströnd, og orðið þar mestur bóndi með 100 sauðfjár og nokkra gripi. Nú var kotið í eyði, og hafði Sigurgeir bóndi í Víðum leyft skáldinu að byggja þar. Hús öll voru nú fallin í Víðaseli að undan skildum hnausakofa, er var þrjár álnir í þvermál, saman hlaðinn í topp og keilulaga.

Var fögnuður skáldsins mikill þennan sólríka einmánaðardag, er sólskríkjurnar sungu myrkranna milli út um alla hamrastalla Víðagils, svo að undir tók í hverjum kletti.

Jón í Holti hafði undirgengizt að varðveita hússnotrur skáldsins og annan farangur hans, unz úr rættist með húsakynni í Víðaseli.

Hallgrímur mágur Baldvins var með honum að þessu sinni. Var hann einn af mörgum öreiga húsmennskumönnum Kinnunga. Kvað hann Balda hafa sagt sér, að hann mundi fá keypt skyr á Stafnsholti eða öðrum heiðarbæjum. Jón lét manninn hafa skyr og kvaðst gefa honum það, en þó ekki í nafni mágs hans, er eigi ætti innstæður í búi sínu. Þóttist Jón vita, að Baldi hefði komið Hallgrími í þennan akstur með því að gefa honum ávísun á skyrbú sitt.

Skáldið gisti í Holti með mági sínum næstu nótt. Varð glaumur mikill í Holts-baðstofu, er skáldið hóf þar aftur raust sína eftir fjögurra ára fjarveru. Hafði hann þá ekki alls fyrir löngu ort langt sögukvæði um för sína til tunglsins. Var þar lýst mannskapnaði öllum, og þó einkum kvenkynsins, er var mjög frábrugðinn hinum þingeyska og eyfirzka og miklum mun fullkomnari.

Eftir þetta liðu nokkrir dagar, þar til Baldvin kom með konu sína í Holt, alfarinn úr Köldukinn.- — Fjáreign þeirra hjóna kom með þeim, sex ær óbornar og hesturinn Þokki, sótrauður að lit. Ærnar voru: Stóra-Móra, Litla-Móra, Gráflekka, Golta, Geira og Sóley. Litla-Móra gat ekki borið. Var Guðni í Brenniási sóttur til hennar. Limaði Guðni sundur lambið innan í ánni með hnífi. Lifði ærin og náði sér fljótt. Skömmu síðar kvað Baldi:

Kveða skal um kindina,
hverja og eina nefna:
Móra, Golta, Gráhatta,
Geira, Sóley, Hrefna.

Fjármarki sínu lýsti Baldi þannig:

Sneiðrifað aftan, fjöður
framan finnst á hægra,
en hvatrifað er á hinu —
eg svo lýsi fjármarkinu.


Baðstofa í Holti var í einu lagi, 6X8 álnir með fjórum föstum rúmstæðum, tveim við hvorn gafl. Eystra rúmið við norðurgafl var kallað Auðarúm. Það rúm fengu þau hjón, Baldvin og Anna, til afnota. Flaut margt stefið þaðan kvölds og morgna.

Þegar menn höfðu gengið til náða, hóf skáldið raust sína fyrir alvöru og orti langt fram á nætur, bæði hátt og snjallt. Efni kvæðanna var venjulegast framtíðarbúskapur í Víðaseli. Botnaði móðir mín margar vísurnar, ef hik var á skáldinu, og flýtti það allmikið framgangi búnaðarsögunnar.

Hefði margur bóndinn og mörg konan mátt brenna af öfund vegna þeirra salarkynna og þess fríða kvikfénaðarbús, er þá reis að Víðaseli.

Baldi svifaði sér á Þokka öðru hvoru að Mývatni að afla sér matvæla, áður hann flytti að Víðaseli alfarinn. Varð honum gott til fanga. Enn fremur þurfti hann að afla sér timburs til bæjar síns. Lítið eða ekkert var sótt í kaupstað. Vor var kalt, og eyddist seint klaki úr kringlótta kofanum í Víðaseli. Voru síðustu leifar klakans bornar út og hrís látið koma í staðinn. Síðan var sæng hjónanna lögð á hrísið og kofinn gerður að ráðabirgðasvefnstofu. Loks var jörð orðin stunguþíð, og veggir tóku að rísa af grunni, þótt hríðar gengju öðru hvoru.

Bárður Sigurðsson, sjálflærður listasmiður, tegldi grind til bæjarins, hurð og glugga. Grindin var reist og tyrft' yfir. Síðan kom fjalagólf, og náði það yfir tvo þriðju gólfflatarins. Rúmstæðið var sett f ast, og þurfti því ekki timbur undir, þar sem það stóð. Borðið við gluggann var sömuleiðis fest með nöglum og tryggilega um allt búið. Græni skápurinn, er geymdi bókakost skáldsins, var ramlega negldur niður á fótabrík rúmsins og bifaðist ekki þaðan í átján ár. Síðar komu þiljur á þrjá vegu baðstofunnar, er var tvö stafgólf að lengd.

Þegar búið var að leggja gólfið, tók skáldið að dansa þar á, svo segjandi:

„Nú vantar ekkert nema blessuð börnin á gólfið."

Fjárhús var reist fram af baðstofunni. Veggur var í milli og dyr á. Síðar var veggur sá rifinn. Kallaði Baldi þar „fordyri", er veggurinn hafði staðið, og sagði þá:

„Það er þessi makalausa fánabreidd um fordyrið. — Gaman er að geta byggt sí svona, — en dýrt er það — o, svei því."

Eitt byggt ból blasti við frá Víðaseli í hásuðri. Það var Stöng, er Jón skáld Hinriksson hafði reist af auðn nálægt miðjum sjötta tug 19. aldar. Þar bjó Jón með fyrstu konu sinni, Friðriku Helgadóttur frá Skútustöðum. Börn þeirra voru sex og munu öll vera fædd á Stöng nema hið elzta, Jón í Múla, er var fæddur á Grænvatni.

Baldvin skáld átti langa og viðburðaríka sögu í Víðaseli. Orti hann þar við litla borðið undir glugganum nokkrar skáldsögur og ógrynni ljóða. Að vetrinum nam ljóðagerð hans á mánuði oftlega 200 blaðsíðum. Þeir Jón í Holti og Baldvin skáld háðu marga hildi saman í heimahúsum, um engjar og tún og þó langflestar í kaupstaðarferðum til og frá Húsavík. Voru þeir oftast nær allvel sáttir, en þó sló í brýnu við og við.

„Baldi skáldi", var ölkær úr hófi fram. Drakk þó sjaldan heima, en í kaupstaðarferðum var hann ekki lamb við að leika, drakk sig þá fullan á svipstundu og vildi slást. Varð Húsavík öll í uppnámi, er Baldi kom þar. Þótti gárungum matur í að koma Balda til að reiðast og fá hann til að öskra sem hæst. Stundum gældu þeir við hann, fengu hann til að sitja á stóli. Greiddu þeir þá hár hans og skegg með miklum fagurgala. En er minnst varði, gripu þeir tóbakspung hans og slógu á nasir honum. Tókst þá eltingaleikur um bæinn, er Baldi hljóp eftir strákunum, öskrandi með froðufalli. Sættist hann þó við þá að lokum, og ný leiksýning hófst. Stundum óku þeir Balda í kerru margir saman, en hann lék þá einvaldskonung. Á einni slíkri leiksýningu hrópaði Baldi með hárri, valdbjóðandi rödd:

„Akið inn í Frúarstræti!"

Létu þá strákarnir kerru konungsins renna út af veginum niður í forarsvað. Ekki var þó sýningin þar með búin. — Komst Baldi upp úr forinni og skeiðaði eftir strákunum um stræti borgarinnar.

Oft komst Jón í hann krappan að fá Balda til að slíta sig frá þessu ævintýralífi og snúast til heimferðar með honum. Varð Jón að beita hörkuátökum og hótunum um meiðingar undir drep, ef hann ekki hlýddi, en Baldi formælti vini sínum og öskraði, hljóp af baki og reyndi að komast undan á flótta. Urðu margir til að rétta Jóni hjálparhönd, er strokumaðurinn sentist fram hjá húsum þeirra með ófögrum munnsöfnuði og drynjandi öskri.

Væri talað til Balda í gamantón, var hann fljótur að finna viðeigandi svör, svo hugkvæmur var hann, jafnvel þótt hann sýndist dauðadrukkinn.

Eitt sinn, er hann hafði vætt brækur sínar, gekk kunningi fram hjá og sagði:

„Nú er hann farinn að rigna, Baldvin minn."

Baldi leit þá brosandi niður á milli fóta sér og sagði:

„Já — ég er nefnilega leikari, heillin."

Baldi var sjálfboðinn og sjálfsagður í heimsókn til Jóns vinar síns í Holti um jól og nýár, páska og hvítasunnu og oft þess á milli. Lék hann þá á als oddi, las upp ljóð og sögur, allt frumsamið, og að auk draugasögur og ævintýri, oft langt fram á nætur. Kona Balda hlustaði á hugfangin. Hún var glaðlynd að upplagi og hafði næmt eyra fyrir því, er kímilegt var. Sagði hún margar skrýtlur úr átthögum sínum í Eyjafirði og hló þá oft svo dátt, að hún tárfelldi. Anna var lítið upplýst, ólæs og uppalin sem klakaklár, hafði gengið berfætt á sumrum öll sín æskuár og verið látin vinna öll hin verstu verk. Þrátt fyrir það var hún bæði stór og sterk, og kjarkurinn óbilandi til hinztu stundar.

Komið gat það fyrir, að Baldi læsi upp langa fyrirlestra um heimspeki. Var þá ekki heiglum hent að fylgjast með.

Jón segir þá eitt sinn:

„Nú ertu að verða vitlaus, Baldvin."

Anna segir, og hlær við:

„Ekki held ég nú það."

Oft verzluðu þeir með kindur, Jón og Baldi, og þóttust báðir eiga kynbótafé. Vildi Baldi njóta þess, að Jón hafði til að kaupa kindur, er honum litust vel, fyrir hátt verð, heldur en ganga frá. Jón vildi kaupa mórauða á af Balda, en hann sagði, að fleiri byðu og nefndi háar upphæðir. Jón segir þá: „Þetta er ekki til neins fyrir þig, Baldvin — þú slærð mér ekki plötu."

Við þessi orð reiddist Baldi, svo að hann æddi fram og aftur með fúkyrðum. Jón sá, að svo búið mátti ekki standa, og fleygði til hans tóbaksplötu með þessum orðum:

„Þarna slæ ég þér plötu, Baldvin."

Var þá sem slökkt væri bál, og hló nú Baldi allur og stakk á sig plötunni. Jón bar mjög lof á Önnu, konu Balda, í eyru honum, og mun það hafa bætt nokkuð fyrir kerlingu í sambúð þeirra hjóna. Sagði Jón, að Anna myndi margt og færi vel með það, er hún segði frá. Því sagði Baldi:

„Gaman hef ég af því, að þegar Jón veit ekki eitthvað, segir hann: Hún Anna veit það. En þegar Anna veit ekki, þá segir hún: Hann Jón veit það."

Þegar Anna lá helsjúk og rænulaus, sótti Baldi Jón. Voru þeir tveir einir yfir Önnu, er hún gaf upp andann. Var þá svarta náttmyrkur, er þeir höfðu lagt Önnu til á fjölum að baki rúmi þeirra hjóna í Viðaseli. Baldi vildi ekki gista heima þessa nótt, en Jón sagði, að ekki væri ratandi, færi hann hvergi, og talar höstugt:

„Ekki hræðist ég hana Önnu dána."

Baldi starir á Jón svona undrandi og segir:

„Nei-ei, — Ertu svona kjarkmikill, Jonni? — Það er nú auðvitað annað með þig, þú varst henni Önnu alltaf svo góður."

Varð svo að vera sem Jón vildi. Sváfu þeir svo í hjónarúminu — en Anna til fóta. Svaf Jón vel þessa nótt, en Baldi illa. Var þetta seint á góu (1915), og birti snemma. Hafði þá Baldi setið við skriftir mikinn hluta nætur, er Jón vaknaði, og látið loga á lampa sínum, er var 100 gramma glas með dulukveik í. Voru þiljur hússins orðnar ærið dökkar ef tir 18 ára olíureyk frá Aladínslampa ævintýraskáldsins í heiðinni.

Jón sér, að Baldi hefur á borði sínu glas með dökkum vökva í, og sýpur á því við og við. Jón spyr, hvort þau væru ekki send Önnu og hvort hann haldi, að þau henti honum fullhraustum sem henni sjúkri.

Verður þá hið rauða, stutta andlit Balda undra langt og fölt, sem Krists á krossinum. Dregur hann nú orðin blítt og raunalega:

„Hann Sigurmundur sendi mér þessa dropa. — Hann hefur líklega grunað, hvernig mér mundi líða. — Önnu sálugu sendi hann ekki meðul. Hann vissi sem var, að dauðinn einn fékk læknað hana — úr því sem komið var."

Þessa nótt hafði Baldi ort fagurt kvæði eftir „Önnu sálugu" og las það nú yfir höfðamótum Jóns. Við og við setti harðar og beizkar gráthviður að Balda, allt frá því að Anna skildi við. Sýndist Jóni hann fá krampaflog, og féllu tárin í gusum niður af augunum. Tók nú Jóni að leiðast þetta þóf og segir hastur:

„Því lætur þú svona, maður lætur nokkur maður svona?"

Stillist þá Baldi í hvert sinn, starir á Jón undrandi og segir æ hið sama:

„Nei — ertu svona kjarkmikill Jonni."

Nú fer Jón heim í Holt, og Baldi verður honum samferða að Laugaseli. — Þar þarf hann að stanza lítið eitt og tilkynna dauðsfall Önnu og er þó uggandi um, að hún sé enn á lífi, og segir:

„En hafi nú Anna sáluga ekki verið dáin, þegar við Jón minn gengum frá henni, þá hefur okkur Jóni mínum illa yfirsézt."

Baldi dvelur nú í Holti í sóma og yfirlæti með Jóni vini sínum og samrekkja þeir. Hvílir Baldi við þil og hefur hrútskylli fylltan neftóbaki undir svæflishorninu. Vaknar hann oft og tekur þá í nefið. Heyrir Jón hann segja drauma sína hálfhátt. Einn draumur hans er þessi:

„Mig dreymir tvær endur. — Önnur var undir klaka, hin var lifandi og var með unga. — Það var svo skrýtið, að mér fannst það tilbúinn ungi. — Þó var hann lifandi". Hallar hann sér þá á svæfilinn og sofnar. Öðru sinni rís Baldi upp og tekur kylli sinn, dæsir þá ánægjulega og segir við sig sjálfan hálfhátt sem fyrr:

„Já. — Mig dreymdi, að ég var trúlofaður stúlku norður í Kelduhverfi. — Já — norður í Kelduhverfi — norður í Kelduhverfi." Hallar Baldi sér þá með hægð og sofnar vært.

Nú líður óðfluga að jarðarför Önnu á Einarsstöðum. Hafa Reykdælir þráð þann dag mjög, er Baldi jarðsyngur Önnu sína, og fjölmenna þeir sem mest þeir mega.

Helgi prestur framkvæmir athöfnina að formi til, en Baldi hefur þó orðið að mestu, les upp eftirmæli tvö og síðan nokkur ljóð önnur. Segir hann þá sem satt var: „Hún Anna hafði alltaf svo gaman af kvæðunum mínum." Hundur Balda fylgir kistunni og vill óvægur fara ofan í gröfina með henni, svo að menn verða að hamla honum.

Baldi lætur veita vel, og eru boðsgestir hinir ánægðustu með skemmtiatriði dagsins. Baldi grætur að vísu nokkuð, en fáir koma á eftir. Manga Olgeirs er þá gömul orðin, en þó í fullum færum, rangeygð mjög og nornarleg, bráðskýr, alin upp í Eyjafirði og hefur ekki lært að lesa fremur en Anna.

Baldi víkur sér að henni og segir hátíðlegur:

„Konan átti þessi forláta skrautklæði. — Þú hefðir nú máski viljað bera þau."

Manga snýst illa við og segir: „Það á ekki við að tala um það hér."

Baldi fer hringferð þetta sumar: norður á Tjörnes ög er sagður heitinn þar ekkju, síðan að Baldursheimi við Mývatn, þá að Stóru-Tungu í Bárðardal, loksins í Kræklingahlíð.

Réttarhald stendur yfir í Lönguhlíð. Kona, ung og fögur, á að sanna faðerni barns síns. Sýslumaður gengur hart að henni, en í því stikar Baldi í réttarsalinn og kallar hátt og snjallt:

„Hættið þér þessum ljóta leik, herra sýslumaður! — Ég á barnið."

Sýslumaðurinn gengur til Balda, þakkar honum orðið, stingur að honum hundraðkarli, tekur ofan og kveður. Stuttu síðar er Baldi kominn í hjónaband, kaupir Auðbrekku í Húsavík og flytur þangað með hina ungu brúði. — Er þá liðið misseri, frá því að „Anna sáluga" dó.

Skömmu síðar kemur Baldi á fund Jóns í Holti, er segir við hann: „Nú á ég ekki nema syndirnar." „Þá er það annað með mig", segir Baldi og kveður samstundis af munni fram:

Í mér dansar drottins mynd
sem djákni innst í kórum.
Ég á alveg enga synd
eftir í mínum fórum.

Baldi kemur að máli við gamla grannkonu sína frá Víðaselsárum: Það eru nú ekki góðar heimilisástæður hjá mér, heillin! — Konan bæði ung og falleg, en ég orðinn svoleiðis, að ég má ekkert á mig reyna, og hún svo viðkvæm, að það má ekki setjast hjá henni, þá er hún með barni."

Ritarinn spurði föður sinn, Jón í Holti, hvort hann héldi, að Baldvin væri fæddur skáld, og hvort hann áliti ekki, að þar hefði mislukkazt gott andlegt hestefni. Jón svaraði: „Ég held ekki, að hann hafi mislukkazt. Hann hefði orðið því lélegri maður sem meira hefði verið undir hann hlaðið. Það var Víðasel og einveran þar, er gaf honum tækifæri til manndóms, og vegna Víðasels og vegna Önnu gömlu á hann sögu, sem ekki gleymist, ef einhver vildi rita hana. Þegar hann kvæntist í annað sinn, komst hann inn í andlaust basl og sálarkraftar hans þurru.

Hvort Baldvin var skáld — ja, það veit ég ekki. Ég veit ekki hverjir eru skáld. — Þeir vísu um það. En Matthías mundi hafa sagt, að hann væri alþýðuskáld af guðs náð, ekki síðra en Símon Dalaskáld, er hann bar á lof.

Þeir, sem kunna að skemmta fólkinu, öllum almenningi, með frásögn í bundnu og óbundnu máli, hafa þeir ekki meira gildi, en þeir, er fáir eða engir skilja, nema með miklu erfiði og miklum heilabrotum? Hugsun Baldvins var auðunnin og nærtæk og komst í rím á svipstundu. Símon hafði þennan sjaldgæfa hæfileika, en var minna skáld en Baldvin, er hafði leiftrandi kímnigáfu, sem hann hamdi ekki nema í samtali og hraðkveðnum stökum.

Það var nú ekki mikið vandað til bögunnar, er Baldvin kastaði til mín þegar við fórumst hjá á hraðri ferð á Laugafelli. — Þó mun hún lifa:

Buðlung hæða blessi þig,
blíð-heims-gæðin hressi þig,
kóngurinn sjálfur kyssi þig,
— Kölski gamli missi þig.

Auðvitað missa menn ekki annað en það, er þeir hafa átt. — Þessa list kunni Baldvin og kunni að beita henni snarari en elding. Sumir menn nutu Baldvins aldrei vegna þess, að þeir voru að gera kröfur til hans, sem hann gat ekki uppfyllt. Ég heimtaði. aldrei dyggð af Balda, þess vegna gat ég umborið hann og notið þess, er hann hafði fram yfir flesta aðra.

Það var nokkuð hæft í því, er Sigurður í Yzta-Felli sagði við mig, er ég gekk á leið með honum: „Gáfur Baldvins hafa birzt sem neistar upp úr reykháfi." Neistar úr reykháfi lifa stutt, en lýsa þó í myrkri. — Mun Sigurður hafa átt við það. En hafi Baldi ekki getað orðið afburðaleikari, veit ég aldrei, hverjir geta orðið það.




Engin ummæli: