18 október 2008

Sýnishorn af orðfæri Halldórsstaðafólks



Dobía: fjöldi, mikið magn (Þarna var dobía af fólki, þarna var dobía af berjum)

Að klukka í e-n: að hnippa í e-n, nefna við e-n

Snerra: átök, rifrildi

Móast (við): þráast við, malda í móinn

Krokulegur: kuldalegur, aumur af kulda („Ósköp var hann Jón nú krokulegur þegar hann kom inn úr kuldanum.“

Að berja: að tína ber („... við fórum í berjamó langt austur fyrir hraun, hituðum okkur þar kaffi og berjuðum vel...“ (úr bréfi Bergþóru Magnúsdóttur til Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum 30. september 1913))

Afturfararlegur: að líta út eins og að hafa hrakað („Mér brá heldur í brún að sjá hann, því hann var svo afturfararlegur og hrumur að ég ætlaði ekki að þekkja hann...“ (úr bréfi Bergþóru Magnúsdóttur til Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum 30. september 1913))

Afhýða: hamfletta („Svo sendi ég með Flóru 100 rjúpur í skólann.... og má nú Okta afhýða þær og matreiða.“ (úr bréfi Bergþóru Magnúsdóttur til Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum 24. nóvember 1914))

Krúkk: uppiskroppa („Nú er ég að verða alveg krúkk (hefur þú aldrei heyrt getið um Adam krúkk“ (úr bréfi Bergþóru Magnúsdóttur til Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum 24. nóvember 1914))

Upp á mitt hopp og hí: óbundin(n) („...mér leiðist fremur húsmóðurstaðan, ég vil helst vera upp á mitt hopp og hí.“(úr bréfi Bergþóru Magnúsdóttur til Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum 10. apríl 1914))

Ljót er nú lífsbókin: erfiðir tímar („Jæja, ljót er nú lífsbókin, en við huggum okkur við að „aftur komi vor að liðnum vetri og vaxi nýjar rósir sumar hvert.““(úr bréfi Bergþóru Magnúsdóttur til Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum 18. janúar 1918))

Krakkatorfhausar: nemendur („Nær væri þér að fara að gifta þig heldur en að kafa eins og föru kerling með stytt pilsið upp að knjám , milli bæjanna þarna í Landeyjunum og kenna krakkatorfhausum, því mér fynst það sá aumasti piparmeyjastarfi

Frílista sig: njóta sín, skemmta sér („...mér líður ágætlega, hefi nóg af öllu, ferðast og frílista mig og vinn svo þess á milli eins og gengur.“ (úr bréfi Bergþóru Magnúsdóttur til Dýrfinnu Gunnarsdóttur frá Hólmum 25. júlí 1919))

Rudd(ur): búin(n), tæmd(ur) („Elsku systir nú fer ég að verða rudd.“ (úr bréfi Kolfinnu Magnúsdóttur til Bergþóru Magnúsdóttur systur sinnar 25. desember 1912))

Rispa: skrifa („...ætla jeg að rispa þjer fáeinar línur...“ (úr bréfi Magnúsar Þórarinssonar til Bergþóru Magnúsdóttur dóttur sinnar 23. maí 1912))

Höggva í e-n: fara fram á við e-n („Í það var jeg að höggva við hana að vera hjá mjer sem mest hún gæti af árinu...“ (úr bréfi Magnúsar Þórarinssonar til Bergþóru Magnúsdóttur dóttur sinnar 23. maí 1912))

Blábuxi: einstaklingur sem hugsar aðeins um vinnu og efnislega hluti

Að vera ekki gerður úr neinum kassafjölum: að vera spunnið í e-n

Hrærispaði: ungur heimilisfaðir sem er duglegur að hjálpa til í eldhúsinu og vinna önnur heimilisverk

Strympinstrump: e-ð (sérstaklega flík) sem ekki fer vel, kauðaleg, púkalegt („Æ, þetta er óttalega strympinstrump“)

Gírug(ur): sólgin(n) („Ekki er ég gírug í selinn“)

Agðaleg(ur): drusluleg(ur) („Óttalega ertu nú agðalegur, greyið“)

Engin ummæli: